Skip to content

Auðnutittlingur

Auðnutittlingur Carduelis flammea

Auðnutittlingur er lítill grá-/brúnleit finka, útbreidd í norðlægum löndum hringinn í kringum hnöttinn. Hann hefur ljósan kvið, rauðan díl á enninu, gulan gogg og fremur stutt stél. Íslenski auðnutittlingurinn er frábrugðinn öðrum auðnutittlingum í útliti, er meiri um sig og lengri, rákóttari á síðunum og með svarta kverk. Leidd hafa verið að því rök að skilgreina mætti íslenska auðnutittlinginn sem sérstaka deilitegund.
Auðnutittlingar halda sig að mestu í skóglendi. Þeir eru fræætur, og sækja einkum í fræ af birki, elri og njóla hér á landi og stofnstærð tegundarinnar sveiflast eftir árlegri birkifræframleiðslu skóganna.

Auðnutittlingar verpa í trjám og runnum, 4-6 eggjum í vandaða körfu sem þeir vefa úr stráum og fóðra með fjöðrum. Líklegt er að þeir verpi tvisvar sinnum yfir sumarið ef vel viðrar.
Kynslóðalengd auðnutittlings er 4,6 ár.

Áætlaður fjöldi auðnutittlinga í Evrópu eru 6 til 14 milljón pör sem er um 20% af heimsstofninum. Hann er ekki á alþjóðlegum válista þrátt fyrir merkjanlega fækkun.
Heildarstofn íslenskra auðnutittlinga er um 31 þúsund pör. Auðnutittlingur er ekki mikið rannsakaður hérlendis en talið er að stofninn fari stækkandi og tegundin er ekki á válista.
Leidd hafa verið að því rök að skilgreina mætti íslenska auðnutittlinginn sem sérstaka deilitegund.

Fróðlegir tenglar

https://norfolkbirds.weebly.com/icelandic-redpoll.html
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/passeriformes/audnutittlingur-acanthis-flammea
https://www.iucnredlist.org/search?query=redpoll&searchType=species

Kosningastjóri: Guðni Sighvatsson

Auðnutittlingurinn er pönkari.

Í upphafi áhuga áhuga míns á fuglum varð auðnutittlingurinn vinsælastur. Hann er hér allt árið um kring eins og við Íslendingar og kemur ekki bara þegar sólin skín eins og sumir. Hér þreyir hann þorrann, nagar birkifræ og reynir að lifa af veturinn en flýr ekki af hólmi þegar snjórinn fellur. Auðnutittlingurinn er fugl almúgans. Hann er pönkari með rauð kambinn sinn og hollur þeim sem hann fær fræ frá. Hvað er fallegra en að hugsa til lítilmagnans þegar harðnar í búi og standa saman hér á norðurhjara?

Ég hyggst koma þessum góða fugli á framfæri og rökstyðja vel hversvegna hann á það skilið að verða fugl ársins 2022.