Flórgoði Podiceps auritus
Flórgoði er sérlega skrautlegur, fremur lítill votlendisfugl. Í sumarbúningi er hann gulbrúnn á háls með gylltan skúf yfir augunum, silfurhvítur á bringu, grár á baki með svartar kinnar. Til að toppa þetta hefur hann rauð augu. Hann ber oft unga sína á bakinu á sundi þegar þeir eru litlir og skringilega röndóttir á litinn á þeim aldri. Flórgoði hefur sérkennilegar blöðkur á tánum eða hálfgerð sundfit.
Flórgoðinn er að mestu leyti farfugl með vetursetu á sjó í norðvestur-Evrópu, kringum Bretland og Frakkland. Flórgoðinn er sjaldgæfur varpfugl hér á landi en honum fækkaði mikið fram undir lok 20. aldar samhliða þurrkun votlendis en helstu búsvæði flórgoðans á sumrin eru vötn og tjarnir.
Flórgoðinn býr sér hreiður úr sprekum og vatnagróðri úti í vötnum, upp við bakka og hólma. Hreiðrið er sérstaklega hannað með breytilegt vatnsyfirborð í huga og þannig gert til að fljóta, oft fest í vatnagróður eða hríslur. Eggin eru 3-5 í hreiðri.
Flórgoðinn kafar eftir hornsílum, brunnklukkum og mýlirfum í ferskvatni yfir sumartímann og tekur einnig flugur af yfirborði. Á veturna kafar hann eftir smáfiski og krabbadýrum í sjó.
Kynslóðalengd flórgoðans er 7,1 ár.

Evrópustofn flórgoða telur um 6-9 þúsund pör, eða um 10% af heimsstofninum. Flórgoða hefur fækkað mikið í N-Ameríku og sums staðar í Evrópu, og er því á heimsválista sem tegund í nokkurri hættu og á Evrópuválista sem tegund í yfirvofandi hættu.
Íslenski flórgoðastofninn hefur vaxið mikið frá því upp úr 1990 og er ekki lengur á válista. Stofninn var kominn upp í 700 varppör árið 2004 og líklegt er að nú séu yfir 1000 pör hérlendis. Yfir helmingur þeirra verpur við Mývatn og Laxá.