Skip to content

Heiðlóa -sigurvegari 2021

Heiðlóa Pluvialis apricaria

Þar sem heiðlóan vann keppnina um fugl ársins í fyrra, þá situr hún hjá í ár. Við gátum þó ekki staðist það að fræða þá aðeins sem vilja vita meira um vorboðann okkar ljúfa svo þess vegna fær hún að vera með hinum 20 fuglunum sem taka þátt í forvalinu.

Heiðlóa í sumarbúningi, eins og við þekkjum hana best, er gyllt á baki með svarta framhlið, frá andliti niður á kvið. Hvít rák aðskilur litina tvo. Á veturna líta fuglarnir út eins og unglóur, gylltar um allan kroppinn.

Lóan er farfugl og vorboðinn ljúfi sem beðið er eftir með eftirvæntingu á hverju vori. Á veturna dvelur íslenska lóan aðallega á Írlandi, Frakklandi, Spáni og í Portúgal. Þær allra fyrstu koma hingað í mars en aðal komutími lóu er í apríl.

Lóan verpur í þurrlendi, móum og grónum hraunum. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum. Eggin eru fjögur. Utan varptíma er hún í fæðuleit í fjörum og árósum, í lyngmóum og á túnum. Lóan er dýraæta og étur ánamaðka, bjöllur, skordýr, þangflugur, og skeldýr en hún fær sér einnig ber á haustin.
Kynslóðalengd lóu er 5,2 ár.

Heiðlóan var valin fugl ársins 2021 og bar þar höfuð og herðar yfir aðra fugla. Hún var ótvíræður sigurvegari og verður því ekki mögulegt að velja hana í forvali eða vali fugls ársins 2022.

Evrópskur varpstofn heiðlóu telur um 600-900 þúsund pör og fer vaxandi. Heiðlóa er ekki á alþjóðlegum né evrópskum válista.
Hér á landi verpa um 400 þúsund pör . Stofnþróun heiðlóu hérlendis er óþekkt en hún er ekki á válista.

Fróðlegir tenglar

http://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/charadriiformes/heidloa-pluvialis-apricariahttps://www.iucnredlist.org/species/22693727/86551440