Skip to content

Himbrimi Gavia immer

Himbrimi er sjaldgæfur varpfugl hér á landi og hefur stofninn verið gróflega metinn 200−300 pör. Hann er á válista hér á landi, metinn í nokkurri hættu vegna stofnsmæðar en vetrarfuglatalningar Náttúrufræðistofnunar benda til hægfara fjölgunar hér við land undanfarna áratugi.
Um 10 varpsvæði hér eru alþjóðlega mikilvæg fyrir himbrima og einn viðkomustaður á haustin (Þingvallavatn).

Himbrimi er svartur og hvítur vatnafugl með mikinn og sterklegan gogg, stór og langur á líkama og þungur á flugi. Sumarhamurinn hefur sérlega fallegt mynstur í svörtu og hvítu, bæði á hálsi og baki. Hann hefur grængljáandi svart höfuð og dimmrauð augu. Líkaminn er sérhæfður til kafsunds og eru fótleggirnir staðsettir svo aftarlega á búknum að hann á erfitt með að komast á land til að sinna eggjum sínum. Hann verpur einu sinni á ári, tveimur eggjum sem hann staðsetur rétt við vatnsbakka svo hann eigi auðvelt með að renna sér á land til að liggja á þeim.

Fullorðinn himbrimi lifir á vötnum á sumrin. Hann gefur frá sér auðþekkjanlegt gól sem heyrist langt að. Á veturna heldur himbrimi sig á hafi. Himbrimi lifir á fiski sem hann kafar eftir í sjó, ám og vötnum.
Kynslóðalengd himbrima er 9,8 ár.

Himbrimi finnst helst sem varpfugl í Norður-Ameríku, Svalbarða, Grænlandi og Íslandi. Heimsstofnstærð himbrima er talin stór og dreifð og stöðug þrátt fyrir merkjanlega fækkun og er tegundin ekki á heimsválista (IUCN2018). Evrópski varpstofninn eru áætlaður 700-1.300 pör og hefur himbrima fækkað töluvert á vetrarstöðvum í Evrópu og er þar á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU; 2015).

Fróðlegir tenglar

https://www.iucnredlist.org/species/22697842/132607418
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/ciconiiformes/himbrimi-gavia-immer

Kosningastjóri: Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeld

Ég vil vera kosningastjóri, af því að …

Bjó 25 ár á Grænlandi og sigldi mikið. Inn í fjörðum Grænlands líkist haustið þar náttúrinni hér þe. eins og í fyrstu frostnóttum, afar hljóðlátt og þú verður oft bergnuminn yfir hvað þú ert lítill og náttúran mikilfengleg. Þú heyrir oftast í einni dýrategund í einu. Himbriminn er ekki friðaður á Grænlandi en hann er afar lítið skotinn enda ekki hlaupið að því að reyta hann, fjaðrirnar sitja sem fastast. Hann er þó hátíðarmatur hjá Motzfeldts fjölskyldunni frá Qassimiut sem er þorp hvar nú búa aðeins um 20 manns en var fjölmennast um 1950-60 með um 200 íbúa, gamalt veiðimannasamfélag. Þorpið er nyrst á því svæði sem heitir Suður Grænland og er nálægt skerjagarðinum við Davíð Sund sem liggur á milli Kanada og Grænlands. Úthafsloftslag einkennir svæðið en þó má geta þess að eini fundarstaður aðalbláberjalyngs á Grænlandi, Vaccinium myrtilles, er einna vestast á svæðinu. Himbriminn er soðinn með byggi og lauk. Hver tægja af kjöti eða sin er borðuð.
Annar fugl er meira skotinn en Himbriminn og það er æðarfuglinn. Hann er samt ekki eins mikið skotinn eins og stuttnefjan en stuttnefjan er/var um allt Grænland. Mörg fuglabjörg eru nú auð og yfirgefin fyrir norðan á Vesturströndinni, ástæðan eru koma hraðbáta á síðustu öld og eggjataka hefur alltaf verið talin sjálfsögð á Grænlandi. Vetrarfuglinn er að mestu aðkomufugl frá Svalbarða, Íslandi og Kanada. Veiðitími hefur verið styttur í gegnum árin en baráttan fyrir því stóð í mörg ár. Ef þú ert að fara út á ströndina frá Nuuk er það besta sem þú getur fært fólki er Stuttnefja. Langvía finnst og er amk. eitt fuglabjarg með henni á Suður Grænlandi og er þar enn en …jú langvían verpir þar áfram.