Skip to content

Hrafn Corvus corax

Hrafninn er sterkbyggður spörfugl með gljáandi svartan fjaðurham og kröftugan gogg. Hann hefur áberandi fingraða vængenda og fleygað stél.

Hrafninn er alger staðfugl hér á landi, algengur og áberandi víða um land og flýgur gjarnan landshorna á milli. Hrafnar eru félagslyndir og halda sig oft í hópum eða pörum. Hrafninn er klár og hefur gaman af því að leika sér í frístundum, snúa sér á hvolf á flugi og svífa í vindhviðum og finnst gaman að stríða hundum. Hann hoppar gjarnan jafnfætis eða kjagar krummalega með annan vængendann hærri en hinn og gefur frá sér fjöldan allan af mismunandi hljóðum.

Kjörsvæði hrafnsins er mólendi og klettar en hann verpur gjarnan á klettasyllum, en stundum á syllum á byggingum. Hreiðrið er grófbyggt og sterklegt úr allskyns sprekum, ull, beinum og stráum. Það kallast laupur. Hrafninn verpur 4-6 eggjum í laupinn sinn, einu sinn á ári.

Hrafninn er alæta og tækifærissinni, hann tínir egg, unga og kroppar í hræ en einnig rusl og plöntur.
Kynslóðalengd hrafns er 7,9 ár.

Hrafninn finnst víða um heim og er evrópustofninn talinn allt að 1,7 miljón varppör, sem er um 12,5% heimsstofnsins. Hrafninn er ekki á Evrópskum válista.
Íslenski hrafnastofninn var metinn um 2.000 pör árið 1985 en hröfnum hefur fækkað mikið síðan og er nú á válista sem tegund í nokkurri hættu hér á landi.

Fróðlegir tenglar

https://www.iucnredlist.org/species/22706068/113271893
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/passeriformes/hrafn-corvus-corax
https://app.bto.org/birdfacts/results/bob15720.htm
https://nature-art12.eionet.europa.eu/article12/summary?subject=Corvus+corax
https://nmsi.is/molar/fugl_manadarins/hrafn/

Kosningastjóri: Bjarki Sigurðsson

Ég vil vera kosningastjóri, af því að mig langar til að vekja athygli á hrafninum og sýna hvað hann er klár fugl þótt hrekkjóttur sé. Ég mun stofna síður á samfélagsmiðlum og skrifa góða texta um þennan frábæra fugl.