Skip to content

Jaðrakan Limosa limosa

Jaðrakan er leggjalangur og glæsilegur vaðfugl með rauðan háls og bringu og langan gulleitan gogg.

Jaðrakan verpur í Evrópu og í Rússlandi. Íslenskur jaðrakan er farfugl. Hann fetar um strendur Portúgals og annarra Evrópulanda á veturna í leit að æti en kemur heim til Íslands að vori til að ala unga sína í móunum. Hann er vel sýnilegur á listflugi og vælir þá hressilega umhverfis óðal sitt en felur hreiðrið sitt vel í sinutoppum. Jaðrakan verpur einu sinn á ári, fjórum eggjum í grasfóðraða dæld.

Jaðrakan er láglendisfugl og verpur helst í graslendi nálægt votlendi. Eftir varptíma hópast þeir saman á túnum, í ræktarlandi, á leirum og við stöðuvötn þar sem þeir safna orkuforða fyrir farflugið yfir til meginlands Evrópu.

Jaðrakan étur pöddur, fræ og ber. Hann potar með gogginum djúpt í leirur, mýrar eða tjarnarbotna eftir ormum, skeldýrum, sniglum og lirfum og notar snerti- og hreyfiskyn í gegn um nefið og fæturna til að finna bráðina.
Kynslóðalengd jaðrakans er 8,6 ár. Hann verður að jafnaði 18 ára gamall.

Evrópustofn jaðrakans er áætlaður 100-150 þúsund pör (ca. 18% af heimsstofninum), þar af um 25 þúsund pör á Íslandi . Jaðrakan hefur fækkað á meginlandi Evrópu vegna aukinna landbúnaðarumsvifa á síðustu áratugum og er á heimsválista sem tegund í yfirvofandi hættu og á evrópskum válista sem tegund í nokkurri hættu.
Jaðrakan er algengur varpfugl hér á landi og hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN mátu stofninn 25 þúsund pör árið 2016 en ári síðar var hann metinn um 67 þúsund pör af fræðimönnum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Jaðrakan er ekki á válista hér á landi.
Íslenskir jaðrakanar heyra til sérstakrar deilitegundar (Limosa limosa islandica) sem verpur nær eingöngu hérlendis. Suðurlandsundirlendið er langmikilvægasta varpsvæði hans með 28% stofnsins.

Fróðlegir tenglar

https://app.bto.org/birdfacts/results/bob5320.htm
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/charadriiformes/jadrakan-limosa-limosa
https://www.iucnredlist.org/species/22693150/111611637

Kosningastjóri: Telma Þrastardóttir

Ég vil vera kosningastjóri, þó að ég sé enginn fuglafræðingur en ég er líffræðingur og hef áhuga á fuglum. Jaðrakan gleymi ég aldrei úr fuglafræðinni hvað það er áhugavert hvernig karlinn velur sér stað fyrir hreiðrið , gengur á undan kerlingunni og lætur hana máta staði. Mun pósta upplýsingum og einhverju skemmtilegu á samfélagsmiðla. Dettur einnig í hug að vera með eitthvað sprell í vinnunni tengt þessu, 120 manns sem vinna þar og einnig önnur stofnun sem deilir með okkur mötuneyti.