Kjói Stercorarius parasitcicus
Kjói er fimur á flugi, með langa, mjóa vængi og oddhvassar miðfjaðrir sem skaga aftan úr stélinu. Hann hefur tvo þekkta liti, brúnan og skjóttan, og eru fjaðrirnar fremur mattar. Hann hefur svartar sundfitjar.
Kjói finnst um norðurhvel jarðar. Á Íslandi er kjóinn alger farfugl. Hann er strjáll varpfugl um allt land en dvelst sunnarlega í S-Atlantshafi að vetrarlagi.
Kjói heldur til í mosagrónu láglendi og í mýravist á hálendi. Hann verpur tveimur eggjum í dæld sem hann gerir í jarðveginn. Kjói er sérhæfður í að stela sandsílum af öðrum fuglum: kríu, teistu og lunda. Hann eltir fugl þar til hann sleppir bráð sinni eða kastar henni upp. Hann tekur einnig skordýr og egg. Vegna hruns í sandsílastofninum frá árinu 2005 er talið að kjóa hafi fækkað mikið og varp misfarist.
Kynslóðalengd kjóa er 13,5 ár.

Evrópustofn kjóa telur um 40-56 þúsund pör, sem er um 20% af heimsstofninum. Ekki er nægilega vitað um stofnþróun í Evrópu en þó sýna gögn að kjóa hefur fækkað innan evrópusambandsins, og um 50% í Noregi síðustu 20 árin, vegna fæðuskorts og afráns. Kjói er ekki talinn í hættu á alþjóðlegum válistum.
Kjói er á válista sem tegund í hættu hér á landi. Að sögn Náttúrufræðistofnunar Íslands ætti kjói að vera flokkaður sem tegund í bráðri hættu en er það ekki sökum þess að talnagögn liggja ekki fyrir. Stofninn er talinn um 11 þúsund pör en talningar á Úthéraði mældu 80% rýrnun í stofninum á árunum 2005–2016.
Fróðlegir tenglar
https://www.iucnredlist.org/species/22694245/132535550#population
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/charadriiformes/kjoi-stercorarius-parasiticus
https://www.iucnredlist.org/species/22694245/132535550
https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/00063657.2021.1969334
https://eunis.eea.europa.eu/species/1276
http://datazone.birdlife.org/index.php/species/factsheet/arctic-jaeger-stercorarius-parasiticus/details