Kría Sterna paradisaea
Krían er létt og glæsileg þerna. Þessi fugl hefur einstaklega langa vængi og stél og sérlega stutta fætur með agnarlitlum sundfitjum. Hún er litfögur, hvít með gráum tónum á baki og vængjum, svarta hettu sem nær yfir augun og hárautt nef og tær.
Krían er alger farfugl og dvelur í suður Atlantshafi á veturna, allt suður á Suðurskautslandið. Hingað kemur hún gagngert til að ala unga. Hún flýgur allra fugla lengst til að komast á varpstöðvarnar, eða þvert yfir hnöttinn svo að segja.
Krían heldur til við sjó og vötn og verpur oft í þéttum vörpum á söndum, í möl eða sinu oft við vatn eða sjávarsíðu. Eggin eru 1-2 í hreiðri og liggja í lítilli dæld í möl, móa eða grasi. Krían reynir að verja ungviði sitt af bestu getu enda afskaplega viðkvæmt fyrir átroðningi þar sem það liggur í góðum felulitunum á jörðinni.
Fæða kríunnar er að mestu sandsíli, hornsíli og seiði. Krían getur haldið sér kyrri í loftinu á meðan hún eygir bráð sína og steypir sér svo á kaf í vatn og sjó á eftir bráðinni sem hún sporðrennir eða ber í unga sína. Hún tínir stundum flugur og pöddur af gróðri en það eitt og sér er ekki næg fæða fyrir ungana.
Kynslóðalengd kríunnar er 13,4 ár. Krían hefur varp fjögurra ára.

Evrópustofninn er talinn 560-900 þúsund pör sem er um 74% af heimsstofninum . Kríu fer fækkandi á heimsvísu en er ekki talin í hættu í Evrópu. Í Bretlandi er hún þó talin í nokkurri hættu.
Hérlendis er krían talin í nokkurri hættu og stofninn metinn 150 – 250 þúsund varppör fyrir hrun sem varð í sandsílastofninum árið 2004. Síðan þá hefur krían átt erfitt með að koma upp ungum vegna fæðuskorts í hafi, en engar opinberar tölur hafa verið nefndar um stofnstærð síðan þá.
Fróðlegir tenglar
https://app.bto.org/birdfacts/results/bob6160.htm
https://www.rspb.org.uk/birds-and-wildlife/wildlife-guides/bird-a-z/arctic-tern/
https://www.iucnredlist.org/species/22694629/132065195
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/charadriiformes/kria-sterna-paradisaea
https://www.iucnredlist.org/species/22694629/166284438#population
Kosningastjóri: Fannar Sigurðsson
Ég vil vera kosningastjóri, af því að: Ég er mikill fuglaáhugamaður og mér líst best á kríuna í ár enda fagur fugl sem ferðast mikið eins og ég væri sjálfur til í að gera.
Ég kem til með að búa til Facebook síðu, jafnvel Instagram aðgang líka, fyrir fuglinn og setja inn skemmtilegar myndir af honum sem gætu glatt fólk sem sér þær.
…