Skip to content

Lóuþræll Calidris alpina

Lóuþræll er smávaxinn vaðfugl með svipað litarhaft og heiðlóan, brúnyrjóttur á baki og svartur á kvið með hvíta rönd sem aðskilur litina niður með líkamanum. Hann hefur fallega bogadregið nef sem er hvorki langt né stutt af vaðfugli að vera.

Lóuþræll verpur í heimskautalöndum umhverfis norðurhvel jarðar. Hann er alger farfugl og hefur vetursetu í V-Afríku. Fyrir utan íslenska varpstofninn fara hér um grænlenskir lóuþrælar á vorin og haustin á leið sinni á varpstöðvarnar á Grænlandi. Fyrir þá eru lífríkar fjörur og leirur hérlendis lífsnauðsynlegar fyrir áframhaldandi ferðalag. Þeir sjást í hópum í flæðarmálinu vor og haust, oft í fylgd með lóum. Lóuþrællinn er votlendisfugl á varptíma og finnst á láglendi um mestallt land, en verpur líka víða á hálendinu. Hann verpur fjórum eggjum, einu sinni á sumri.

Lóuþræll er dýraæta og étur pöddur, mýlirfur, skeldýr, snigla og burstaorma.
Kynslóðalengd lóuþræls er 8,1 ár.

Tæpur fimmtungur af heimsstofni lóuþræls verpur í Evrópu eða 430-560 þúsund pör . Stofnstærð lóuþræls á heimsvísu hefur minnkað en óvíst er með þróun hans í Evrópu. Lóuþræll er ekki á alþjóðlegum né evrópskum válista.
Lóuþræll er ekki á válista hérlendis, en ekki er vitað með stofnþróun. Talið er að 275 þúsund pör verpi hér. Lóuþrælar sem verpa á Íslandi eru sérstök deilitegund (Calidris alpina schinzii) en yfir 90% hennar finnst hérlendis. Talið er að suðurlandsundirlendið sé hvað mikilvægast sem búsvæði fyrir lóuþræla.

Fróðlegir tenglar

http://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/charadriiformes/louthraell-calidris-alpina
https://www.iucnredlist.org/species/22693427/155480296
https://nmsi.is/?s=l%C3%B3u%C3%BEr%C3%A6ll
https://www.iucnredlist.org/species/22693427/155480296