Skip to content

Lundi Fratercula Arctica

Lundinn ber íslensku fánalitina á gogginum. Hann er snaggaralegur, hvítur með svarta kápu og hettu og fallega grátt andlit. Fæturnir eru skær appelsínugulir og hann hefur teygjanleg munnvik í stíl, rauða augnumgjörð og gráleitar plötur fyrir ofan og neðan augun. Hann er frekar gæfur og einstaklega skemmtilegt að fylgjast með atferli hans.

Lundinn er farfugl sem heldur til á hafi á veturna og kemur í land á vorin til að ala unga sinn. Þá sest hann upp, eins og kallað er og verpur í holu sem hann grefur í grasbala í grónum eyjum, hólmum og klettum. Hann velur sér einn maka og heldur tryggð við hann út lífið. Ungann (pysjuna) mata foreldrarnir fimm sinnum á dag í holu sinni þar til hann verður fleygur. Stundum þurfa þeir að fljúga 50km leið til að komast á góð fiskimið. Ef fjarlægðin er mikið meiri eða fæðuskortur þá hafa þeir ekki orku í að fæða bæði sig og pysjuna, og varpið misferst það árið. Lundinn lifir aðallega á sandsíli og getur kafað niður á 40m dýpi eftir æti. Þeir vinna stundum saman við að smala sílum í torfur svo auðveldara sé að ná þeim.

Lundi er vel sýnilegur á nokkrum stöðum landsins yfir sumartímann, í sjávarklettum og á hafi en um 60% íslenska lundastofnsins verpur í Vestmannaeyjum og Breiðafirði.

Lundinn verpur einu eggi, einu sinn á ári.
Kynslóðalengd lunda er 21,6 ár.

Evrópa hýsir 90% lundastofnsins, áætluð 4,8 til 5,8 milljón pör. Gert er ráð fyrir 50-79% fækkun í Evrópu á árabilinu 2000-2065 (þrjár kynslóðir) og því er lundinn skráður í nokkurri hættu á heimsválista og í hættu á evrópskum válista .
Lundi er einn algengasti fugl landsins en hefur átt erfitt uppdráttar á hlýskeiðum síðustu aldar. Frá árinu 2003 hefur stofninn hnignað um 4% á ári, samhliða hnignun sandsílastofnsins. Þetta hefur valdið miklum ungadauða og varp misfarist mörg ár í röð, sérstaklega á sunnanverðu landinu. Varpstofninn dróst saman um 47 % árin 2003−2015, og geldfuglum fækkaði um 76% á sama tíma . Að óbreyttu gera spár ráð fyrir yfir 90% hnignun íslenska lundastofnsins á næstu þremur lundakynslóðum, eða til ársins 2068. Frá árinu 2018 hefur lundinn verið skráður í bráðri hættu á Íslenskum válista.
Lundi verpur við N-Atlantshaf, aðallega við Ísland, Noreg og Færeyjar. Stærsta varp lunda er á Íslandi og er Ísland því alþjóðlega mikilvægt fyrir lundastofn heimsins.

Fróðlegir tenglar

https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/charadriiformes/lundi-fratercula-arctica
https://www.facebook.com/watch/?v=2680327041999259
https://www.birdlife.org/news/2022/04/06/seabird-of-the-month-atlantic-puffin-fratercula-arctica/
https://www.birdlife.org/news/2022/04/06/seabird-of-the-month-atlantic-puffin-fratercula-arctica/
https://www.iucnredlist.org/species/22694927/132581443