Maríuerla Motacilla alba
Maríuerla er fimur og fínlegur spörfugl, hvít með „svarta húfu og gráleitt sjal“. Stélið er langt og svart og tifar gjarnan upp og niður.
Maríuerla er farfugl sem hefur vetursetu í Afríku. Hún flýgur til Íslands að vori og heldur til m.a. á ræktarlandi og við mannabústaði þar sem hún verpir m.a. í útihúsum og varpkössum, mennskum nágrönnum sínum oftast til mikillar ánægju. Þá sést hún trítla og flögra eftir flugum og fiðrildum sem hún grípur á lofti eða tínir upp af jörðinni.
Hún á 5-6 egg í einu í hreiðurkörfu sem hún gerir úr stráum og verpur einu sinni til tvisvar á sumri.
Kynslóðalengd maríuerlu er 4,2 ár.

Fjórðungur af heimsstofni maríuerlu verpur í Evrópu og telur varpstofninn þar um 17-28 milljón pör. Stofn maríuerlu hefur verið stöðugur í Evrópu og hún hefur ekki stöðu á válista.
Maríuerla hefur ekki verið vöktuð sérstaklega hérlendis en ekkert hefur bent til þess að henni fækki. Hún er því ekki talin í hættu. Áætluð stofnstærð hérlendis er milli 20−50 þúsund pör .
Fróðlegir tenglar
https://www.iucnredlist.org/species/22718348/137417893
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/passeriformes/mariuerla-motacilla-alba