Músarrindill Troglodytes troglodytes
Músarrindill er smár og fremur kúlulaga spörfugl með stutt uppsperrt stél, brúnn á baki en ljósari á kviðinn. Íslenski músarrindill sem er einlend deilitegund er staðfugl sem þýðir að hann lifir hér allt árið um kring. Hann var minnsti fugl landsins áður en glókollur hóf að verpa hér en er þó stærri en músarrindlar í öðrum löndum og dekkri á litinn
Aðal búsvæði músarrindils eru birkiskógar og kjarr, gróið land, borgir og bæir. Hann sést ekki alltaf svo auðveldlega en syngur mjög fallega. Hreiðrið er kúlulaga, ofið úr sinu af karlfuglinum og oft staðsett undir bökkum, í trjám eða í hraunsprungum. Eggin eru 6-8 og alfarið sinnt af kvenfuglinum, sem getur orpið tvisvar á sumri. Músarrindillinn er dýraæta og étur helst flugur, lirfur og köngulær en sækir einnig í marflær á veturna.
Á veturnar heldur músarrindill sig við kaldavermsl og skurði í grónu landi, í skógum og við mannabústaði en líka við þangfjörur. Músarrindlar eru þekktir fyrir að hópa sig á náttstað á veturna til að halda á sér hita.
Kynslóðalengd músarrindils er 3,5 ár.

Músarrindill finnst víða um heim og heimsstofninn er stór, eða yfir 300 miljón fuglar. Evrópustofninn telur 33-57 milljónir para og fer vaxandi . Hann er ekki á alþjóðlegum válista.
Stofnstærð íslenskra músarrindla sveiflast mikið og fer eftir meðalhita á veturna. Stofnstærðin var um 3-5 þúsund pör árið 2000 en fór niður í rúmlega eitt þúsund kynþroska einstaklinga árið 2017. Sterkar vísbendingar eru um að stofninn hafi vaxið á undanförnum árum. Músarrindlar finnast dreift um landið, ekki er talið að stofninn sé í hættu og hann því ekki á válista.
Íslenskir músarrindlar eru sérstök einlend deilitegund (Troglodytes troglodytes islandicus) og eru algerir staðfuglar.
Fróðlegir tenglar
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/passeriformes/musarrindill-troglodytes-troglodytes
https://www.iucnredlist.org/species/103883277/132200296
https://nmsi.is/?s=m%C3%BAsarrindill