Skip to content

Rjúpa Lagopus muta

Rjúpan er meðalstór fugl, mjallhvít að vetri (í felubúningi) með fiðraða fætur til að halda á sér hita og til eiga auðveldar með að ganga í snjónum. Hún hefur svarta vængenda og stélfjaðrir. Karrinn hefur rauðan kamb sem hann notar til að laða að sér kerlu sína og til að draga að sér athygli utanaðkomandi ógnar á vorin (aðallega fálkann) og fórnar sér þannig fyrir kerlu sem er að undirbúa varp og komin í brúnan felubúning langt á undan karranum.

Rjúpan er hánorrænn fugl sem finnst á norðurslóðum kringum hnöttinn og á einangruðum háfjallasvæðum sunnar á hnettinum þar sem hún hefur dagað uppi síðan á síðustu Ísöld. Á Íslandi er rjúpa útbreidd í mólendi og kjarrlendi á láglendi, þéttast á Norðausturlandi. Hún ferðast landshorna á milli en er að öðru leyti alger staðfugl.

Rjúpa er aðalfæða íslenska fálkans, sérstaklega að vori og afskaplega mikilvæg í fæðukeðjunni. Stofnar rjúpu og fálka eru nátengd, og rísa og hníga með ákveðnu taktföstu munstri sem þekkist í fleiri stofnum bráðar og veiðidýrs.

Rjúpa er jurtaæta. Á sumrin étur hún blóm, blöð og aldin, en stöngla og sígræn blöð á veturna. Ungarnir éta skordýr í bland við jurtafæðu.


Rjúpa verpur einu sinni á ári, 11-12 eggjum í hreiðri í mólendi. Kvenfuglinn sér um að liggja á eggjunum og um uppeldi unganna. Afföll unga er 80-90% og 40-80% hjá eldri fuglum. Meðalaldur rjúpunnar eru 2 ár.
Kynslóðalengd rjúpu eru 4,2 ár.

Evrópski rjúpnastofninn telur um 250 þúsund til rúmlega milljón pör sem er um 10% af heimsstofni rjúpunnar. Rjúpu hefur fækkað í Evrópu og er þar á válista sem tegund í yfirvofandi hættu.
Íslenski varpstofn rjúpunnar var metinn gróflega 30-115 þúsund pör árið 2005. Vegna langtíma fækkunar síðustu áratugi hefur rjúpan verið skilgreind sem tegund í yfirvofandi hættu á Íslenskum válista. Friðun var sett á árin 2003 og 2004 til að sporna gegn hnignun stofnsins af mannavöldum. Árlega er staðan endurmetin og veiðitímabil ákveðið til að stuðla að sjálfbærum veiðum.
Rjúpa nam hér land við lok ísaldar fyrir 10.000 árum frá Grænlandi og Ameríku. Íslenska rjúpan er einlend deilitegund (Lagopus muta islandorum) og er alger staðfugl þó grænlenskar rjúpur koma hingað öðru hverju.

Fróðlegir tenglar

https://www.iucnredlist.org/species/22679464/113623562
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/galliformes/rjupa-lagopus-muta