Skip to content

Silfurmáfur Larus argentatus

Fullorðinn silfurmáfur er stór með ljósgrátt bak og vængi og svarta vængbrodda. Að öðru leyti er hamurinn hvítur. Goggurinn er gulur með rauðum díl fremst í neðri hlutanum og fæturnir ljósbleikir með sundfitum.

Silfurmáfur verpur eingöngu í norðvestanverðri Evrópu. Þeir sem verpa hér á landi eru af deilitegundinni Larus argentatus argenteus. Þeir hófu varp hér upp úr 1930 og hafa frá upphafi verið algengastir á Austfjörðum en finnast nú um allt land nema á Vestfjörðum og Breiðafirði. Ungfuglar fara til Bretlandseyja á veturna en fullorðnir eru að mestu staðfuglar. Silfurmáfur er oft í félagsskap annarra máfa og getur eignast frjó afkvæmi með hvítmáf.

Helstu búsvæði silfurmáfs eru við sjávarsíðuna og í votlendi. Hann lifir á sjávarfangi svo sem fiski og krabbadýrum, eggjum og ungum annarra fugla og einnig hræjum og lífrænum úrgangi úr opnum ruslahaugum. Silfurmáfsungar sem mataðir eru af úrgangi af ruslahaugum vaxa hraðar en þeir sem fá fæðu úr náttúrunni. Silfurmáfur verpur 3 eggjum, einu sinni á ári, oft í dæld á jörðinni fóðraða með mosa.

Kynslóðalengd silfurmáfs er 12,5 ár

Silfurmáfar verpa eingöngu í Evrópu. Stofnstærðin telur 530 – 600 þúsund pör og fer fækkandi. Silfurmáfur er skráður í yfirvofandi hættu á evrópskum válista.
Giskað hefur verið á að íslenski stofn silfurmáfs telji 5-10 þúsund varppör. Vetrarfuglatalningar benda til samfelldrar fækkunar frá 1990 og er silfurmáfur því skráður á íslenskum válista í yfirvofandi hættu. Aldrei hefur farið fram viðunandi talning á stofninum.

Fróðlegir tenglar

https://eunis.eea.europa.eu/species/Larus%20argentatus
https://ec.europa.eu/environment/nature/conservation/species/redlist/downloads/European_birds.pdf
https://www.iucnredlist.org/species/62030608/206585142
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/charadriiformes/silfurmafur-larus-argentatus
https://nmsi.is/molar/fugl_manadarins/silfurmafur/
https://doi.org/10.5253/arde.v59.p7