Skip to content

Skógarþröstur

Skógarþröstur Turdus iliacus

Skógarþröstur er brúnleitur spörfugl, ljós á kviðinn með gulleitt nef, auðþekktur á gulrauðum fjöðrum undir vængjunum sem hann breiðir stundum upp yfir væng þegar honum er kalt.

Skógarþröstur verpur víða um heim. Íslenskir skógarþrestir eru að mestu farfuglar en nokkur þúsund halda hér til á veturna, sérstaklega í þéttbýli, hinir fara til helst til Bretlands, Írlands og Frakklands. Skógarþröstur er algengur garð- og skógarfugl um allt land og fyllir loftið af söng á vorin.

Skógarþrösturinn hoppar jafnfætis og stingur nefinu eftir ormum og skordýrum í grasflötum en tekur einnig bobba og snigla af yfirborði. Á haustin halda skógarþrestir til í hópum og háma í sig reyniber eftir fyrstu næturfrostin með miklum ánægjuklið.

Skógarþröstur verpur í hreiður sem hann vefur úr grasstráum falið í sinu eða tré, 4-6 egg, stundum tvisvar yfir sumarið.
Kynslóðalengd skógarþrasta er 5,2 ár.

Áætlað er að 13-20 milljón pör skógarþrasta verpi í Evrópu, eða 40% af  heimsstofninum. Skógarþrestir eru bæði á heims- og Evrópuválista sem tegund í yfirvofandi hættu  en áætlað er að stofninn hafi hnignað um 30% á rúmlega 15 árum eða þremur kynslóðum.  

Stofnstærð íslenska skógarþrastarins var um 165 þúsund pör árið 2017. Stofnþróunin er óþekkt en ákjósanlegt varplendi hefur vaxið mikið með aukinni garð- og skógrækt og þröstum sem dvelja hér á veturna fer fjölgandi. Skógarþröstur er ekki á válista hérlendis. Íslenskir skógarþrestir teljast sérstök deilitegund (Turdus iliacus coburni).

Fróðlegir tenglar

https://www.iucnredlist.org/species/22708819/110990927
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/passeriformes/skogarthrostur-turdus-iliacus