Skip to content

Skúfönd Aythya fuligula

Skúfönd er svört og hvít, snotur lítil kafönd. Á varptíma hefur karlfuglinn bláleitan gljáa um höfuðið og fjaðurskúf upp af höfðinu, bláleitan gogg og sundfit. Augun eru gul.

Skúföndin er farfugl að mestu hérlendis . Hún er mest við Bretland og við Írland á veturna en fer enn víðar, sérstaklega ungfuglarnir. Þá heldur hún til á sjó, í ferskvatni og við árósa. Á sumrin finnst skúföndin við lífauðug, grunn vötn og tjarnir þar sem hún verpur dreift, en gjarnan innan um hettumáf og kríu. Hún verpur 8-11 eggjum einu sinni á ári. Hreiðrið er jarðlægt, vel falið í þéttum gróðri nærri vatni, fóðrað með sinu og dúni.

Skúfönd er dýraæta sem kafar til botns í vötnum og ám eftir mýlirfum, krabbadýrum, vatnabobbum og stöku hornsíli. Hún étur einnig vatnaplöntur.
Kynslóðalengd skúfandar er 7,3 ár.

Evrópustofn skúfandar eru áætluð 550 – 740 þúsund pör, sem eru um 47% heimsstofnsins. Skúfönd er ekki á alþjóðlegum né evrópskum válista og heimsstofninn telst stöðugur.
Íslenski skúfandarstofninn er gróflega metinn 8 – 12 þúsund pör og er ekki á válista hérlendis.
Um 50−67% íslenskra skúfanda verpa við Mývatn sem er alþjóðlega mikilvægt svæði fyrir tegundina.

Fróðlegir tenglar

https://www.iucnredlist.org/species/22680391/86013549
https://www.iucnredlist.org/species/22680391/86013549#population
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/anseriformes/skufond-aythya-fuligula
https://nmsi.is/molar/fugl_manadarins/skufond/