Skip to content

Smyrill Falco columbarius

Smyrill er samanrekinn, lítill, flugfimur og snoppufríður fálki sem grípur bráð sína á flugi með gulum fótunum. Kvenfuglinn er brúnn og stærri en karlinn sem hefur gráa „skikkju“ á bakinu. Bæði eru þau ljósari á kviðinn með dökkum röndum og áberandi skeggrákum í andliti.
Þessi minnsti ránfugl landsins er að mestu farfugl. Meirihluti stofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum og í Vestur-Evrópu en fáeinir hafa vetursetu hér og halda helst til við þéttbýli.

Smyrillinn er láglendisfugl, verpur um allt landi í klettum, giljum og í bröttum brekkum þar sem hann krafsar grunna hreiðurskál á gróna syllu eða klettabrún. Hann verpur einu sinni á ári, 3-5 eggjum.

Smyrillinn er ránfugl eins og áður segir og étur mest smáfugla sem hann þreytir á lágflugi í móum og graslendi. Einnig veiðir hann hagamýs.
Kynslóðalengd smyrils er 5,7 ár. Smyrlar verða að meðaltali þriggja ára og hefja varp eins árs.

Varpheimkynni Smyrils eru um Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Stofnstærð smyrils í Evrópu hefur verið metin á bilinu 20 – 42 þúsund pör, sem er um 15% smyrla í heiminum og er stofninn ekki talinn í hættu.
Smyrill á Íslandi er fremur strjáll og hefur verið giskað á að hér verpi 1.000−1.200 pör. Hann er ekki á lista yfir fuglategundir í hættu.

Fróðlegir tenglar

https://www.iucnredlist.org/species/22696453/154505853#population
https://www.iucnredlist.org/species/22696453/154505853
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/falconiformes/smyrill-falco-columbarius