Toppskarfur Phalacrocorax aristotelis
Toppskarfur er reisulegur og hálslangur fugl, græn-gljásvartur með framstæðan topp á höfðinu á varptíma. Hann hefur langt svart nef, sundfit og græn augu.
Toppskarfur er alger staðfugl hér við land og heldur sig eingöngu á sjó og við sjávarstrendur, mest vestanlands. Hann leitar ekki upp í ár á veturna eins og frændi hans dílaskarfurinn.
Toppskarfur er sérhæfður sundfugl, hann hefur ekki nasir og á ekki í vandræðum með að kafa djúpt og lengi eftir fiski sem hann sporðrennir fimlega um langan hálsinn. Toppskarfur sést oft þar sem hann stendur lengi á skerjum með útbreidda vængi. Ástæðan er sú að hann hefur ekki fitukirtla til að bera feiti á fjaðrir sínar og þarf því að messa, eða „hengja flugfjaðrirnar til þerris“ á þennan hátt eftir góðan sundsprett.
Toppskarfur verpur 1-6 eggjum einu sinni á ári í hreiður sem hann gerir úr þangi á eyjum og skerjum. Oft verpa toppskarfar margir á sama svæði, eða í svokölluðum byggðum.
Kynslóðalengd toppskarfs er 8,8 ár.

Áætluð stofnstærð toppskarfs í Evrópu eru 76 – 79 þúsund pör (2015) en það eru um 66% af heimsstofninum. Toppskarfur er ekki talinn í hættu alþjóðlega né í Evrópu þrátt fyrir minnkandi í stofn.
Toppskarfur telst í nokkurri hættu hérlendis vegna þess hve hreiðrum þeirra hefur fækkað síðustu þrjú kynslóðabilin eða um 47% (úr 7100 árið 1994 niður í 3800 árið 2017). Toppskarf má veiða að vetri til og taka unga þar sem hefð er fyrir því.
Aðal varpsvæði toppskarfs hérlendis er í Breiðafirðinum, sem telst alþjóðlega mikilvægt svæði fyrir toppskarf.
Fróðlegir tenglar
https://www.iucnredlist.org/species/22696894/133538524
https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/aves/ciconiiformes/toppskarfur-phalacrocorax-aristotelis